Edda Erlendsdóttir, hefur verið búsett í París í
fjölmörg ár þar sem hún hefur kennt og starfað m.a. við
Tónlistarháskólann í Lyon og Tónlistarskólann í Versölum. Hún starfar nú
sem gestakennari við Listaháskóla Íslands. Ásamt kennslu hefur Edda
hefur haldið fölmarga tónleika og tekið þátt í tónlistarhátíðum í
flestum löndum Evrópu, í Bandaríkjunum og í Kína.
Edda tekur ríkan þátt í tónlistarlífinu á Íslandi m.a. á Listahátíð í Reykjavík, hjá Kammermúsikklúbbnum, í Tíbrá Salnum og á Myrkum músikdögum.
Edda hefur verið virkur þátttakandi í kammertónlist. Hún átti frumkvæði að árlegum kammertónleikum á Kirkjubæjarklaustri og var listrænn stjórnandi í 15 ár. Hún er einnig meðlimur í kammerhópnum Le Grand Tango sem undir stjórn Oliviers Manoury bandoneonleikara hefur sérhæft sig í flutningi á argentískum tangó.
Hún hefur gefið út diska með píanóverkum eftir C.P.E.Bach, Grieg, Haydn, Tchaikovksky, Schubert, Liszt, Schönberg og Berg sem hlotið hafa viðurkenningu og lof. Diskur hennar með 4 píanókonsertum eftir Haydn með Sinfóníuhljómsveit Íslands undir stjórn Kurt Kopecky hlaut Íslensku tónlistarverðlaunin.
Edda Erlendsdóttir var sæmd riddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu fyrir framlag sitt til tónlistar árið 2010.